Ágætu vinir,
Nú við upphaf rafræns prófkjörs finnst mér nauðsynlegt að leiðrétta misskilning sem settur hefur verið á flot með rangfærslum í auglýsingum eins mótframbjóðenda minna, Jóns Hjaltasonar.
Í auglýsingum sínum í Dagskránni og N4 nú í vikunni heldur Jón því fram að ekki sé ágreiningur á milli frambjóðenda í prófkjörinu um annað en skipulagsmál. Þetta er rangt hjá Jóni, annars vegar veit ég að sumir frambjóðendur deila með honum þeirri skoðun að síkið alræmda skuli ekki grafið og hins vegar er það á kristalstæru að Jón er einn um þá skoðun að leggja beri af eða draga úr skólamáltíðum í grunnskólum bæjarins. Hefði Jón virkilega viljað aðgreina sig frá keppinautum sínum hefði hann því máske átt að auglýsa það að hann er á móti skólamáltíðum. Það gerði hann hins vegar ekki, ef til vill vegna þess hve slæm og óvinsæl þessi skoðun hans er.
Ef ég vík aftur að miðbæjarskipulaginu þá finnst mér það vera furðuleg einföldun að láta ágreining um miðbæjarskipulag snúast um síkið og hvort að það verður grafið. Hafið eftirfarandi í huga:
1. Það er ekki búið að samþykkja nýtt miðbæjarskipulag, þar af leiðandi er ekki búið að samþykkja síkið. Þeir sem eru á móti því munu hafa tækifæri til að skila inn athugasemdum við skipulagstillöguna.
2. Skipulag gildir í 20 ár frá því að það er samþykkt. Það verður því nægur tími til að fjalla um þetta síki EF það fer á annað borð inn á skipulag. Brýnni mál ættu að vera undir í þessum kosningum.
3. Þó að framkvæmdir séu settar á skipulag er það ekki trygging fyrir því að ráðist verði í þær.
4. Það hafa aldrei nokkurn tíma komið jafn margir bæjarbúar að neinum ákvörðunum um málefni Akureyrar eins og þróun miðbæjarskipulagsins. Íbúaþing, samkeppni, kynning á verðlaunatillögum, þetta ásamt fleiru laðaði á annað þúsund bæjarbúa til þátttöku. Skipulagstillagan sem nú er í ferli er því fengin fram á eins lýðræðislegan hátt og mögulegt er.
Að þessu sögðu skal það tekið fram að ég er ekki sérstakur áhugamaður um síki. Ég er samt sem áður ánægður með verðandi miðbæjarskipulag og þá þéttingu byggðar sem þar er stefnt að. Við eigum að byggja þéttan og mannvænlegan miðbæ þar sem fólk vill búa.
Opin og heiðarleg stjórnsýsla er mér mjög að skapi og ég ætla að berjast fyrir henni ef ég næ árangri í þessu prófkjöri. Íbúaþingið og allt það sem Akureyri í öndvegi hefur staðið fyrir og gert fyrir miðbæinn er dæmi um framúrskarandi stjórnsýslu með þátttöku hundruða áhugamanna um sitt umhverfi. Mér er ljúft og skylt að hlíta niðurstöðu sem er fengin með jafn lýðræðislegum hætti.
Ég sendi ykkur þessar línur vegna þess að undanfarna tvo daga hef ég orðið var við að rangfærslurnar í auglýsingu Jóns hafa valdið þessum misskilningi og vona að með þessu hafi ég skýrt mína afstöðu.
Að þessu sögðu óska ég eftir stuðningi ykkar allra (sem hafið kosningarétt á Akureyri) við að koma mér í 3. sæti lista Samfylkingarinnar á Akureyri.
Thursday, January 28, 2010
Monday, January 25, 2010
Prófkjör
Ég sækist eftir þriðja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar á Akureyri vegna sveitarstjórnarkosninganna nú í vor.
Prófkjörið fer fram dagana 29. og 30. janúar og er rafrænt. Ég bið ykkur um að merkja við mig í þriðja sæti en það sæti er bæjarstjórnarsæti í dag.
Ég býð mig fram vegna þess að ég veit að ég get hjálpað til við að bæta samfélagið okkar og hvernig við komum okkur í gegnum kreppuna sem við erum í með sem minnstum skaða.
Verkefnið er þetta:
Að lágmarka skaðann af kreppunni; sem samfélag gerum við það með því að tryggja að allir hafi og haldi sínum hlutverkum, þ.e.a.s. hafi vinnu og þar með tilgang.
Hvernig náum við því?
Það er ekki sjálfgefið að allir eigi alltaf að hafa alla þá vinnu sem þeir vilja. Við getum samt haft mjög mikil áhrif á atvinnustigið til dæmis með því að ákveða eftirfarandi:
1. Veðja á ferðamennsku
Íslenska krónan er svo lágt skráð að Ísland er skyndilega orðinn einn ódýrasti áfangastaðurinn í V-Evrópu.
2. Byggjum við flugstöðina
Til að geta veðjað á ferðamennskuna verðum við að byggja við flugstöðina, þannig verða til störf í byggingariðnaði - það er nú þegar búið að lengja flugbrautina og á meðan hún er jafn lítið notuð og raun ber vitni er hún í raun frábært dæmi um vannýtta fjárfestingu.
3. Seljum veturinn og kuldann!
Skíðaveturinn 2008-2009 skilaði Hlíðarfjall hagnaði af daglegum rekstri. Hlíðarfjall stenst nú þegar fyllilega samanburð við önnur skíðasvæði í Evrópu. Síðustu tvö skíðatímabil hefur Fjallið verið opið lengst allra skíðasvæða í Evrópu!! Með alþjóðaflugvöll og vikulegt flug til London og Kaupmannahafnar flytjum við inn þúsundir skíðaiðkenda á hverjum vetri. Þá eru ótalin myrkrið, Norðurljósin, Kaldbakur og allt hitt.
4. Byggjum hótel
Við getum ekki flutt inn skíðafólk nema byggja yfir það hótel. Já, það vantar gistingu fyrir allt þetta skíðalið! Þannig verða til störf við hönnun og byggingu hótelsins og svo langtímastörf við rekstur þess.
Þetta er aðeins ein af þeim leiðum sem við höfum til að bæta lífskjör okkar. Það sem er allra hættulegast núna er að fara í hina áttina og að bæjarfélagið dragi saman í öllum rekstri og framkvæmdum og dýpki kreppuna. Það er þvert á móti skylda bæjarins að gera allt sem mögulegt er til að halda uppi atvinnu og hér að framan er aðeins nefnd ein af þeim leiðum sem blasa við okkur.
Wednesday, November 4, 2009
Lægra raforkuverð til grænmetisræktar

Nú um stundir eru heitar umræður um rafmagnsverð til grænmetisframleiðslu. Í þessu máli eins og reyndar fjandi mörgum öðrum virðast vera tvær meginfylkingar: Ríkisstjórnin annars vegar og svo við hin öll. Og þó, það hefur svo komið í ljós að innan ríkisstjórnar virðist ekki alger einhugur ótrúlegt en satt, þá er Jón Bjarnason með sérskoðun.
Nú bregður hins vegar svo við að ég er sammála Jóni. Auðvitað á að lækka rafmagnsverð til garðyrkjubænda, a.m.k. til jafns við aðra stórnotendur. Svo á að sjálfsögðu að fylgja því mjög náið eftir að verðlækkun verði ekki öll eftir hjá bændunum, ég vil fá almennilega lækkun sem komi þá einnig fram í verðlagi grænmetis. Það kæmi okkur neytendum til góða og hefði svo aftur þau áhrif að vísitala neysluverðs lækkaði og þar með lánin okkar. Þetta er semsagt einfalt mál sem skilar almenningi tvöföldum ávinningi.
Mér finnst þetta borðleggjandi.
Thursday, October 22, 2009
Thursday, October 15, 2009
Monday, October 12, 2009
Orkusalan með verðlaunaherferð!
"Þú hefur frelsi til að gera það sem þú vilt við rafmagnið frá okkur.
Skiptu yfir í nýtt og ferkst rafmagn."
Ó, já! Ég get ekki beðið eftir að losna við að kaupa rafmagnið af fyrirtæki sem skiptir sér af því hvernig ég nota það. Fyrir utan nú að rafmagnið sem ég hef verið að kaupa hingað til er iðulega bæði fúlt og staðið. Stundum jafnvel útrunnið.
Þessi slagorð og reyndar öll auglýsingaherferðin sem þau tilheyra er líklega með því slakara sem hefur komið frá íslenskri auglýsingastofu lengi.
Wednesday, September 30, 2009
Afsögn Ögmundar og næstu skref
Nú þegar Ögmundur Jónasson hefur sagt af sér ráðherradómi er eðlilegt að velta fyrir sér hvað taki við. Ögmundur virðist hafa ákveðið þetta upp á eigin spýtur og gefur þær ástæður að afsögn hans hafi verið nauðsynleg til að tryggja einhug um Icesave málið innan ríkisstjórnarinnar. Ýmsir hafa reyndar bent á að í leiðinni losnar þessi gamla verkalýðshetja við að skera hirð sína niður við trog. Hér má svo sjá að aðeins örfáum klukkustundum eftir að hann sagði af sér var hann farinn að tala öðru vísi en hann gerði sem ráðherra.
Næsta skref...
...er væntanlega skipun nýs ráðherra úr röðum VG. Þar er Steingrími nokkur vandi á höndum enda ekki augljóst hver á að taka við ef ráðningarforsendan er að viðkomandi sé fylgjandi því hvernig Jóhanna og Steingrímur hyggjast leiða ICESAVE til lykta. Sú forsenda útilokar Lilju Mósesdóttur og væntanlega Guðfríði nöfnu hennar. Mér finnst ósennilegt að þriðja Liljan í þingflokknum komi til greina sem ráðherraefni.
Samkvæmt flugufregnum dagsins færir Svandís Svavarsdóttir sig yfir í heilbrigðisráðuneytið. Það myndi um leið leysa úr uppnáminu sem gerðir hennar sem umhverfisráðherra hafa valdið innan Samfylkingarinnar. Verði þetta niðurstaðan liggja stóriðjusinnar í Samfylkingunni líklega á bæn núna um að það verði ekki Álfheiður Ingadóttir sem tekur við umhverfisráðuneytinu.
Ég ætla þó að leyfa mér að setja fram þá spá að Svandís sitji sem fastast en Þuríður Backman gerist ráðherra heilbrigðismála. Hún er jú menntuð hjúkka auk þess að vera formanni sínum afar handgengin. Ætli Árni Þór Sigurðsson sé þó ekki sennilegast kosturinn.
En bjargar þetta ríkisstjórninni úr núverandi klemmu með ICESAVE málið?
Svarið við því er nei, vegna þess að þingflokkur VG verður eftir sem áður klofinn í afstöðu sinni til málsins. Svo lengi sem Ögmundur, Lilja Mósesd. og Ásmundur E. Daðason sitja við sinn keip hefur stjórnin ekki þingmeirihluta í málinu. Þá er afar ósennilegt að Íhaldið kjósi að sitja hjá fari málið inn í þingið á ný. Þar með verður ekki þingmeirihluti að baki stjórninni og hún því í raun fallin.
Hvað þá með þetta hugsanlega lán frá Norðmönnum?
Minn gamli vinur Höskuldur Þórhallsson birtist í dag líkt og bjargvættur með þær fréttir að Norðmenn bíði beinlínis eftir því að lána okkur jafnvirði 2000 milljarða króna. Já það er skrifað 2 með 12 núllum (2.000.000.000.000). Mjög mörg núll. Það eina sem vanti upp á sé að okkar fulltrúar óski eftir láninu.
Hér eru nokkrar athugasemdir nauðsynlegar.
Í fyrsta lagi virðist hann aðeins hafa talað við óbreyttan þingmann hjá miðflokknum sem er smáflokkur með aðild að ríkisstjórninni. Það er ekki að sjá að Hössi hafi náð tali af Stoltenberg eða Halvorsen. Þau eru nú hvort um sig í ágætu talsambandi við forystumenn í stjórnarflokkunum íslensku svo að alger sinnaskipti Norðmanna ættu að hafa borist ráðamönnum okkar til eyrna. Maður veit þó aldrei.
Í öðru lagi virðast Norðmenn fram að þessu hafa viljað vera í takt við hinar Norðurlandaþjóðirnar og láta hugsanleg lán fylgja láni AGS. Hér er því alger stefnubreyting ef rétt reynist (og já það menn hafa nú hringt á milli landa af minna tilefni en algerri stefnubreytingu í erfiðu milliríkjamáli sem þessu).
Í þriðja lagi mun þetta ekki hafa nein áhrif á ICESAVE deiluna sem áfram verður jafn óleyst þó að það væri auðvitað frábært að ná að leysa fjármögnunarhnút ríkisins á þennan hátt.
En eru Norðmenn að bíða eftir að geta drekkt okkur í peningum?
Ef þetta er hins vegar allt satt og rétt hjá Hössa og Norðmenn vilja skera okkur niður úr snöru AGS og það eina sem við þurfum að segja er plís, tjahh þá er ekki gott hvað skal segja. Þá þarf forystufólk ríkisstjórnarinnar að minnsta kosti að útskýra eitt og annað.
Til dæmis af hverju þetta tilboð fór fram hjá þeim.
Ef þau vissu af tilboðinu þarfnast það útskýringa hví ekki hefur verið gengið að því, hvað hangir á spýtunni?
Týndist kannski bréf frá Noregi einhvers staðar í fjármálaráðuneytinu?
Maður spyr sig.
Hvað sem öðru líður þá er það ljóst að ef tækifærið er þarna og ef að ríkisstjórnin hefur ekki sinnt því og ef þarna eru einhverjir aðrir hagsmunir sem okkur er ekki ætlað að vita af og ef það er enginn áhugi á að þiggja þetta lán frá Norðmönnum þá mun fólk spyrja hverra erinda stjórnin gangi.
Það eru mörg ef í þessu en ef (eitt enn) ríkisstjórnin hefur ekki hirt um að sækjast eftir þessu láni þá ætti hún kannski bara að fara frá nú þegar og láta einhverja aðra um að draga okkur upp úr skítnum sem við erum í.
Subscribe to:
Comments (Atom)

