Ágætu vinir,
Nú við upphaf rafræns prófkjörs finnst mér nauðsynlegt að leiðrétta misskilning sem settur hefur verið á flot með rangfærslum í auglýsingum eins mótframbjóðenda minna, Jóns Hjaltasonar.
Í auglýsingum sínum í Dagskránni og N4 nú í vikunni heldur Jón því fram að ekki sé ágreiningur á milli frambjóðenda í prófkjörinu um annað en skipulagsmál. Þetta er rangt hjá Jóni, annars vegar veit ég að sumir frambjóðendur deila með honum þeirri skoðun að síkið alræmda skuli ekki grafið og hins vegar er það á kristalstæru að Jón er einn um þá skoðun að leggja beri af eða draga úr skólamáltíðum í grunnskólum bæjarins. Hefði Jón virkilega viljað aðgreina sig frá keppinautum sínum hefði hann því máske átt að auglýsa það að hann er á móti skólamáltíðum. Það gerði hann hins vegar ekki, ef til vill vegna þess hve slæm og óvinsæl þessi skoðun hans er.
Ef ég vík aftur að miðbæjarskipulaginu þá finnst mér það vera furðuleg einföldun að láta ágreining um miðbæjarskipulag snúast um síkið og hvort að það verður grafið. Hafið eftirfarandi í huga:
1. Það er ekki búið að samþykkja nýtt miðbæjarskipulag, þar af leiðandi er ekki búið að samþykkja síkið. Þeir sem eru á móti því munu hafa tækifæri til að skila inn athugasemdum við skipulagstillöguna.
2. Skipulag gildir í 20 ár frá því að það er samþykkt. Það verður því nægur tími til að fjalla um þetta síki EF það fer á annað borð inn á skipulag. Brýnni mál ættu að vera undir í þessum kosningum.
3. Þó að framkvæmdir séu settar á skipulag er það ekki trygging fyrir því að ráðist verði í þær.
4. Það hafa aldrei nokkurn tíma komið jafn margir bæjarbúar að neinum ákvörðunum um málefni Akureyrar eins og þróun miðbæjarskipulagsins. Íbúaþing, samkeppni, kynning á verðlaunatillögum, þetta ásamt fleiru laðaði á annað þúsund bæjarbúa til þátttöku. Skipulagstillagan sem nú er í ferli er því fengin fram á eins lýðræðislegan hátt og mögulegt er.
Að þessu sögðu skal það tekið fram að ég er ekki sérstakur áhugamaður um síki. Ég er samt sem áður ánægður með verðandi miðbæjarskipulag og þá þéttingu byggðar sem þar er stefnt að. Við eigum að byggja þéttan og mannvænlegan miðbæ þar sem fólk vill búa.
Opin og heiðarleg stjórnsýsla er mér mjög að skapi og ég ætla að berjast fyrir henni ef ég næ árangri í þessu prófkjöri. Íbúaþingið og allt það sem Akureyri í öndvegi hefur staðið fyrir og gert fyrir miðbæinn er dæmi um framúrskarandi stjórnsýslu með þátttöku hundruða áhugamanna um sitt umhverfi. Mér er ljúft og skylt að hlíta niðurstöðu sem er fengin með jafn lýðræðislegum hætti.
Ég sendi ykkur þessar línur vegna þess að undanfarna tvo daga hef ég orðið var við að rangfærslurnar í auglýsingu Jóns hafa valdið þessum misskilningi og vona að með þessu hafi ég skýrt mína afstöðu.
Að þessu sögðu óska ég eftir stuðningi ykkar allra (sem hafið kosningarétt á Akureyri) við að koma mér í 3. sæti lista Samfylkingarinnar á Akureyri.
Thursday, January 28, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)

No comments:
Post a Comment