Ágætu vinir,
Nú við upphaf rafræns prófkjörs finnst mér nauðsynlegt að leiðrétta misskilning sem settur hefur verið á flot með rangfærslum í auglýsingum eins mótframbjóðenda minna, Jóns Hjaltasonar.
Í auglýsingum sínum í Dagskránni og N4 nú í vikunni heldur Jón því fram að ekki sé ágreiningur á milli frambjóðenda í prófkjörinu um annað en skipulagsmál. Þetta er rangt hjá Jóni, annars vegar veit ég að sumir frambjóðendur deila með honum þeirri skoðun að síkið alræmda skuli ekki grafið og hins vegar er það á kristalstæru að Jón er einn um þá skoðun að leggja beri af eða draga úr skólamáltíðum í grunnskólum bæjarins. Hefði Jón virkilega viljað aðgreina sig frá keppinautum sínum hefði hann því máske átt að auglýsa það að hann er á móti skólamáltíðum. Það gerði hann hins vegar ekki, ef til vill vegna þess hve slæm og óvinsæl þessi skoðun hans er.
Ef ég vík aftur að miðbæjarskipulaginu þá finnst mér það vera furðuleg einföldun að láta ágreining um miðbæjarskipulag snúast um síkið og hvort að það verður grafið. Hafið eftirfarandi í huga:
1. Það er ekki búið að samþykkja nýtt miðbæjarskipulag, þar af leiðandi er ekki búið að samþykkja síkið. Þeir sem eru á móti því munu hafa tækifæri til að skila inn athugasemdum við skipulagstillöguna.
2. Skipulag gildir í 20 ár frá því að það er samþykkt. Það verður því nægur tími til að fjalla um þetta síki EF það fer á annað borð inn á skipulag. Brýnni mál ættu að vera undir í þessum kosningum.
3. Þó að framkvæmdir séu settar á skipulag er það ekki trygging fyrir því að ráðist verði í þær.
4. Það hafa aldrei nokkurn tíma komið jafn margir bæjarbúar að neinum ákvörðunum um málefni Akureyrar eins og þróun miðbæjarskipulagsins. Íbúaþing, samkeppni, kynning á verðlaunatillögum, þetta ásamt fleiru laðaði á annað þúsund bæjarbúa til þátttöku. Skipulagstillagan sem nú er í ferli er því fengin fram á eins lýðræðislegan hátt og mögulegt er.
Að þessu sögðu skal það tekið fram að ég er ekki sérstakur áhugamaður um síki. Ég er samt sem áður ánægður með verðandi miðbæjarskipulag og þá þéttingu byggðar sem þar er stefnt að. Við eigum að byggja þéttan og mannvænlegan miðbæ þar sem fólk vill búa.
Opin og heiðarleg stjórnsýsla er mér mjög að skapi og ég ætla að berjast fyrir henni ef ég næ árangri í þessu prófkjöri. Íbúaþingið og allt það sem Akureyri í öndvegi hefur staðið fyrir og gert fyrir miðbæinn er dæmi um framúrskarandi stjórnsýslu með þátttöku hundruða áhugamanna um sitt umhverfi. Mér er ljúft og skylt að hlíta niðurstöðu sem er fengin með jafn lýðræðislegum hætti.
Ég sendi ykkur þessar línur vegna þess að undanfarna tvo daga hef ég orðið var við að rangfærslurnar í auglýsingu Jóns hafa valdið þessum misskilningi og vona að með þessu hafi ég skýrt mína afstöðu.
Að þessu sögðu óska ég eftir stuðningi ykkar allra (sem hafið kosningarétt á Akureyri) við að koma mér í 3. sæti lista Samfylkingarinnar á Akureyri.
Thursday, January 28, 2010
Monday, January 25, 2010
Prófkjör
Ég sækist eftir þriðja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar á Akureyri vegna sveitarstjórnarkosninganna nú í vor.
Prófkjörið fer fram dagana 29. og 30. janúar og er rafrænt. Ég bið ykkur um að merkja við mig í þriðja sæti en það sæti er bæjarstjórnarsæti í dag.
Ég býð mig fram vegna þess að ég veit að ég get hjálpað til við að bæta samfélagið okkar og hvernig við komum okkur í gegnum kreppuna sem við erum í með sem minnstum skaða.
Verkefnið er þetta:
Að lágmarka skaðann af kreppunni; sem samfélag gerum við það með því að tryggja að allir hafi og haldi sínum hlutverkum, þ.e.a.s. hafi vinnu og þar með tilgang.
Hvernig náum við því?
Það er ekki sjálfgefið að allir eigi alltaf að hafa alla þá vinnu sem þeir vilja. Við getum samt haft mjög mikil áhrif á atvinnustigið til dæmis með því að ákveða eftirfarandi:
1. Veðja á ferðamennsku
Íslenska krónan er svo lágt skráð að Ísland er skyndilega orðinn einn ódýrasti áfangastaðurinn í V-Evrópu.
2. Byggjum við flugstöðina
Til að geta veðjað á ferðamennskuna verðum við að byggja við flugstöðina, þannig verða til störf í byggingariðnaði - það er nú þegar búið að lengja flugbrautina og á meðan hún er jafn lítið notuð og raun ber vitni er hún í raun frábært dæmi um vannýtta fjárfestingu.
3. Seljum veturinn og kuldann!
Skíðaveturinn 2008-2009 skilaði Hlíðarfjall hagnaði af daglegum rekstri. Hlíðarfjall stenst nú þegar fyllilega samanburð við önnur skíðasvæði í Evrópu. Síðustu tvö skíðatímabil hefur Fjallið verið opið lengst allra skíðasvæða í Evrópu!! Með alþjóðaflugvöll og vikulegt flug til London og Kaupmannahafnar flytjum við inn þúsundir skíðaiðkenda á hverjum vetri. Þá eru ótalin myrkrið, Norðurljósin, Kaldbakur og allt hitt.
4. Byggjum hótel
Við getum ekki flutt inn skíðafólk nema byggja yfir það hótel. Já, það vantar gistingu fyrir allt þetta skíðalið! Þannig verða til störf við hönnun og byggingu hótelsins og svo langtímastörf við rekstur þess.
Þetta er aðeins ein af þeim leiðum sem við höfum til að bæta lífskjör okkar. Það sem er allra hættulegast núna er að fara í hina áttina og að bæjarfélagið dragi saman í öllum rekstri og framkvæmdum og dýpki kreppuna. Það er þvert á móti skylda bæjarins að gera allt sem mögulegt er til að halda uppi atvinnu og hér að framan er aðeins nefnd ein af þeim leiðum sem blasa við okkur.
Subscribe to:
Comments (Atom)
