Næsta skref...
...er væntanlega skipun nýs ráðherra úr röðum VG. Þar er Steingrími nokkur vandi á höndum enda ekki augljóst hver á að taka við ef ráðningarforsendan er að viðkomandi sé fylgjandi því hvernig Jóhanna og Steingrímur hyggjast leiða ICESAVE til lykta. Sú forsenda útilokar Lilju Mósesdóttur og væntanlega Guðfríði nöfnu hennar. Mér finnst ósennilegt að þriðja Liljan í þingflokknum komi til greina sem ráðherraefni.
Samkvæmt flugufregnum dagsins færir Svandís Svavarsdóttir sig yfir í heilbrigðisráðuneytið. Það myndi um leið leysa úr uppnáminu sem gerðir hennar sem umhverfisráðherra hafa valdið innan Samfylkingarinnar. Verði þetta niðurstaðan liggja stóriðjusinnar í Samfylkingunni líklega á bæn núna um að það verði ekki Álfheiður Ingadóttir sem tekur við umhverfisráðuneytinu.
Ég ætla þó að leyfa mér að setja fram þá spá að Svandís sitji sem fastast en Þuríður Backman gerist ráðherra heilbrigðismála. Hún er jú menntuð hjúkka auk þess að vera formanni sínum afar handgengin. Ætli Árni Þór Sigurðsson sé þó ekki sennilegast kosturinn.
En bjargar þetta ríkisstjórninni úr núverandi klemmu með ICESAVE málið?
Svarið við því er nei, vegna þess að þingflokkur VG verður eftir sem áður klofinn í afstöðu sinni til málsins. Svo lengi sem Ögmundur, Lilja Mósesd. og Ásmundur E. Daðason sitja við sinn keip hefur stjórnin ekki þingmeirihluta í málinu. Þá er afar ósennilegt að Íhaldið kjósi að sitja hjá fari málið inn í þingið á ný. Þar með verður ekki þingmeirihluti að baki stjórninni og hún því í raun fallin.
Hvað þá með þetta hugsanlega lán frá Norðmönnum?
Minn gamli vinur Höskuldur Þórhallsson birtist í dag líkt og bjargvættur með þær fréttir að Norðmenn bíði beinlínis eftir því að lána okkur jafnvirði 2000 milljarða króna. Já það er skrifað 2 með 12 núllum (2.000.000.000.000). Mjög mörg núll. Það eina sem vanti upp á sé að okkar fulltrúar óski eftir láninu.
Hér eru nokkrar athugasemdir nauðsynlegar.
Í fyrsta lagi virðist hann aðeins hafa talað við óbreyttan þingmann hjá miðflokknum sem er smáflokkur með aðild að ríkisstjórninni. Það er ekki að sjá að Hössi hafi náð tali af Stoltenberg eða Halvorsen. Þau eru nú hvort um sig í ágætu talsambandi við forystumenn í stjórnarflokkunum íslensku svo að alger sinnaskipti Norðmanna ættu að hafa borist ráðamönnum okkar til eyrna. Maður veit þó aldrei.
Í öðru lagi virðast Norðmenn fram að þessu hafa viljað vera í takt við hinar Norðurlandaþjóðirnar og láta hugsanleg lán fylgja láni AGS. Hér er því alger stefnubreyting ef rétt reynist (og já það menn hafa nú hringt á milli landa af minna tilefni en algerri stefnubreytingu í erfiðu milliríkjamáli sem þessu).
Í þriðja lagi mun þetta ekki hafa nein áhrif á ICESAVE deiluna sem áfram verður jafn óleyst þó að það væri auðvitað frábært að ná að leysa fjármögnunarhnút ríkisins á þennan hátt.
En eru Norðmenn að bíða eftir að geta drekkt okkur í peningum?
Ef þetta er hins vegar allt satt og rétt hjá Hössa og Norðmenn vilja skera okkur niður úr snöru AGS og það eina sem við þurfum að segja er plís, tjahh þá er ekki gott hvað skal segja. Þá þarf forystufólk ríkisstjórnarinnar að minnsta kosti að útskýra eitt og annað.
Til dæmis af hverju þetta tilboð fór fram hjá þeim.
Ef þau vissu af tilboðinu þarfnast það útskýringa hví ekki hefur verið gengið að því, hvað hangir á spýtunni?
Týndist kannski bréf frá Noregi einhvers staðar í fjármálaráðuneytinu?
Maður spyr sig.
Hvað sem öðru líður þá er það ljóst að ef tækifærið er þarna og ef að ríkisstjórnin hefur ekki sinnt því og ef þarna eru einhverjir aðrir hagsmunir sem okkur er ekki ætlað að vita af og ef það er enginn áhugi á að þiggja þetta lán frá Norðmönnum þá mun fólk spyrja hverra erinda stjórnin gangi.
Það eru mörg ef í þessu en ef (eitt enn) ríkisstjórnin hefur ekki hirt um að sækjast eftir þessu láni þá ætti hún kannski bara að fara frá nú þegar og láta einhverja aðra um að draga okkur upp úr skítnum sem við erum í.
